CC á þitt verk

Ef þú villt setja Creative Commons leyfi á þitt sköpunarverk þá þarftu að byrja á því að finna út hvaða leyfi hentar þér. Það er ekkert eitt rétt svar, og þó svo að leyfi henti einu verkefni vel getur það verið óviðeigandi í öðru.

Þetta er samt ekki mjög flókið. Fjórir valkostir, sex mögulegir samsetningar.

Höfundar getið (BY – Attribution)

Í öllum Creative Commons leyfum er gerð sú krafa að þegar verk eru notuð er höfundar getið. Þetta er kallað “BY” skilyrðið, og er gert til að tryggja að allir viti hvaðan verkið kemur.

Öll Creative Commons leyfi gera þessa kröfu. Ef þessari kröfu er sleppt er í rauninni verið að hleypa verkinu út í almenning, rétt eins og ef höfundarétturinn væri runninn út.

Ekki í hagnaðarskyni (NC – Non-commercial)

Þessi takmörkun kveður á um að þeir sem nota verkið megi ekki hafa fjárhagslegan ávinning af því. Þetta þýðir að þú einn sem skapari verksins mátt græða pening á því, nema þú gefir öðrum sérstakt leyfi til þess.

Þrjár útgáfur af þessu tákni eru til, með dollaratákni ($), evrutákni (€) og yenatákni (¥). Þau eru öll jafngild, og má nota hvað það sem höfundi þykir flottast eða mest viðeigandi.

Engar afleiður (ND – No derivatives)

Þessi takmörkun segir að það megi ekki búa til ný verk sem byggja á verkinu þínu án þess að biðja um leyfi fyrir því sérstaklega. Þá má til dæmis ekki endurblanda lagi eða nota það í kvikmynd, en það mætti þó deila því áfram í óbreyttri mynd.

Þessi takmörkun er oft talin þyngsta og mest íþyngjandi takmörkunin, að hluta til vegna þess að það er ekki alveg með öllu ljóst hvað þetta felur í sér. Að taka bók og bæta við nýjum kafla er klárlega afleiða, og mögulegar er það afleiða að víxla nöfnum aðalpersónanna. En er það afleiða að prenta bókina á glanspappír, eða að taka lag og færa það af MP3 formi yfir á Ogg Vorbis form? Er það afleiða að nota lag óbreytt í kvikmynd? Almenn skynsemi hefur yfirleitt verið látin ráða, en auðvitað er eðlilegast að setja sig í samband við höfund ef einhver vafi er á réttindum.

Deilist áfram (SA – Share alike)

Þessi takmörkun segir að þeir sem búa til afleidd verk úr þínu verki eru skyldugir til að leyfa öðrum að deila áfram undir sömu skilmálum. Þannig geturðu tryggt að öll verk sem byggja á þínu frjálsa verki verði frjáls áfram.

Þessi takmörkun hefur verið kölluð “copyleft” takmörkunin, og er forsenda þess að skapandi almenningur verði til. Hugmyndin er upprunalega komin frá Richard Stallman, stofnanda frjálshugbúnaðarhreyfingarinnar, en hún nýtist jafnt fyrir allar aðrar gerðir hugverka.

Leyfin

Úr þessum takmörkunum er hægt að búa til sex mismunandi leyfi. Í röð frá því frjálsasta yfir í það mest takmarkandi eru þau:

  • BY
  • BY-SA
  • BY-NC
  • BY-ND
  • BY-NC-SA
  • BY-NC-ND

Efst á þennan lista mætti því setja “almenning”, þ.e. að enginn höfundaréttur sé á verkinu, og neðst mætti setja hefðbundinn höfundarétt.

Það er ekkert leyfanna endilega “réttara” en neitt annað, það fer alveg eftir því hvað markmiðið er. En með þessum sex leyfum er vonin að hægt sé að þjóna þörfum alls skapandi almennings.

Comments are closed.